Læknahúsið Lífsteinn, Álftamýri 1-5, 108 Reykjavík


  Hafa samband: : viðtalsbeiðnir í síma: 530 8300 og 895 8197

Hvað eru æðahnútar?

Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Eru til einhver ráð við æðahnútum?
  • Er hægt að fá blóðtappa vegna æðahnúta?

Æðahnútar eru hnýttar, útþandar bláæðar. Hvaða bláæð sem er getur orðið að æðahnúti en þær sem oftast koma við sögu eru æðarnar í fótum okkar og fótleggjum. Ástæðan er sú að upprétt staða, það er þegar við stöndum og göngum, eykur þrýsting í bláæðunum í neðri hluta líkamans eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Æðahnútar á legg

Æðalokur A. ekki bakflæði B. bakflæði

Fyrir kemur að konur fái æðahnúta á meðgöngutímanum. Ástæðan er sú að blóðmagn í líkama þeirra eykst á þessum tíma en um leið minnkar blóðflæði frá fótleggjum í átt að mjaðmagrind konunnar. Þessi breyting á blóðrásinni er til stuðnings vaxandi fóstrinu en hefur þá leiðinlegu aukaverkun að bláæðar í fótleggjum móðurinnar stækka. Æðahnútar koma stundum upp á yfirborðið í fyrsta sinn eða versna seint á meðgöngunni. Þá þrýstir legið meira niður á bláæðarnar í fótleggjum en áður. Gyllinæð er æðahnútur í eða kringum endaþarmsopið. Helstu áhættuþættir fyrir æðahnútum eru eftirfarandi:

  • Aldur – öldrun veldur sliti á æðalokunum sem getur endað með bilun þeirra.
  • Kyn – konur eru líklegri en karlar til að fá æðahnúta, líklega vegna áhrifa hormóna á meðgöngu, rétt fyrir tíðir og við tíðahvörf. Taka hormónalyfja gæti aukið áhættuna.
  • Erfðir – Ef aðrir í fjölskyldunni hafa æðahnúta er líklegra að þú fáir þá líka.
  • Offita – Of mikil þyngd eykur þrýsting á bláæðarnar.
  • Langar kyrrstöður – Blóðflæði verður lélegra ef þú ert í kyrrstöðu í langan tíma, þar sem vöðvadælan er ekki að vinna eðlilega.

Til eru ýmis ráð sem geta dregið úr óþægindum vegna æðahnúta og hindrað að ástand þeirra versni. Má þar nefna líkamsrækt, megrun ef um of þungan einstakling er að ræða, sleppa því að ganga í of þröngum fötum, liggja með púða undir fótleggjum og forðast langar kyrrstöður eða –setur. Æðahnútar sem koma fram á meðgöngu skána oftast af sjálfu sér innan þriggja mánaða frá fæðingu. Ef þessi ráð hafa ekki komið í veg fyrir að æðahnútarnir versni eða ef þú hefur samt áhyggjur af útliti þeirra er rétt að leita til læknis. Eftir skoðun fótleggjanna og æðahnúta á þeim, ásamt samtali við sjúklinginn, metur heimilislæknir hvort ástæða sé til að leita ráða hjá æðaskurð- eða húðlækni. Ýmsar aðgerðir geta komið til greinar, svo sem herðimeðferð, (e. sclerotherapy) leysigeislaaðgerð og skurðaðgerðir sem fjarlægja ónýtu æðarnar með ýmsu móti. Æðahnútar eru stundum settir í samband við ýmiss konar hættulegt ástand, eins og æðabólgu, sár djúpt í fótleggjum og blóðtappa. Þótt æðahnúturinn sé ekki bein orsök fyrir slíku eykur hann áhættuna þar sem blóðflæði er tregara um hann.

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru æðahnútar? “. Vísindavefurinn 24.2.2005. http://visindavefur.is/?id=4773. (Skoðað 7.7.2015).

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.